top of page

Fræðst um geitur og afurðir þeirra á Háafelli

Viðtal frá 2017

Geiturnar á Háafelli í Hvítárssíðu eru vinsælar meðal ferðafólks. Að sögn Jóhönnu Bergmann Þorvaldsdóttur bónda eru það ekki aðeins geiturnar sjálfar heldur einnig afurðir þeirra sem fólk hefur áhuga á. „Við reynum að forðast öll aukaefni í þær geitaafurður sem við framleiðum og það er svo skemmtilegt að sjá viðbrögð fólks þegar það smakkar svona hreina matvöru. Fólk er ekki vant þessu og langflestir eru mjög hrifnir,“ segir Jóhanna í samtali við blaðamann. Á Háafelli býðst fólki að koma í heimsókn og kynnast geitunum. „Við bjóðum upp á leiðsögn og viljum fræða fólk um geitina en þær eru bara ansi merkileg dýr. Við fræðum fólk um mikilvægi geitanna, sögu þeirra frá landnámi og um hollustu og gæði afurðanna. Það eru ekki aðeins matvæli sem koma af geitinni heldur gerum við einnig krem úr tólginni, sápu úr mjólkinni og svo eru ullin líka mjög dýrmæt. Kremin eru græðandi og mjög góð fyrir þá sem eru t.d. með exem eða psoriasis,“ segir Jóhanna.



Selur geitaafurðir


Á Háafelli er lítil verslun þar sem fólk getur keypt geitaafurðir eða hlaup og síróp úr ólíkum plöntum í náttúrunni. „Við erum með kiðlingakjöt, pylsur, kiðlingakæfu, geitamjólkurís, fetaost, hvítmygluost, sápur og krem. Auk þess sem við búum til og seljum bæði hlaup og síróp úr jurtum sem við fáum úr garðinum og náttúrunni hér í kring. Við gerum t.d. mjög skemmtilegt fjólublátt hlaup úr þrenningarfjólu,“ segir Jóhanna. Aðspurð segir hún allar vörurnar nema mjólkurvörurnar vera framleiddar á staðnum. „Við höfum ekki enn lagt í að fá aðstöðu sem er samþykkt fyrir framleiðslu mjólkurvara. Þorgrímur á Erpsstöðum hefur séð um að gera ostinn fyrir okkur en við ræktum sjálf allar kryddjurtir sem notaðar eru í hann. Við erum bæði með vanillu- og súkkulaðiís en hann er búinn til í Holtseli í Eyjafirði. Það væri vissulega hagkvæmara að geta gert þetta sjálf og við leggjum vonandi í það einn daginn,“ segir Jóhanna.



Hægt að kaupa ostana í Reykjavík


Fyrir þá sem hafa ekki kost á að koma við á Háafelli er hægt að kaupa ostana hjá Frú Laugu við Laugalæk í Reykjavík. „Ostabúðin við Skólavörðustíg hefur stundum verið með osta frá okkur en það er mest í Frú Laugu. Annars erum við bara að selja sjálf og fólk getur alltaf haft samband eða komið í heimsókn. Úrvalið er líka langmest hér hjá okkur auk þess sem fólk sem kemur til okkar fær að hitta geiturnar og fræðast um þær í leiðinni,“ segir Jóhanna að lokum.



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page