top of page

Hvað er í matinn?

Grein frá 2017



Í síðustu viku reið mikið áfall yfir í minu lífi. Ég varð fertug. Hótunarbréfum frá allskonar aldurstengdum áhættuþáttum rigndi inn. Seinni hálfleikur byrjaður. Verð reyndar að líta svo á að ég sé yfir í hálfleik þar sem gæfa mín mæld í persónum og leikendum í lífinu er mjög mikil. Á þessum tímamótum var ýmislegt sem fór í gegnum hugann en alltumvefjandi var þessi eilífa spurning: „Hvað er í matinn?“ Hvað á ég að elda í veislunni, hvað fæ ég mér í hádegismat á fertugsafmælinu, hvaða kvöldsnarl er viðeigandi á þessum stóra degi.

Allir sem reka heimili fá þessa spurningu í andlitið á óvæntustu tímum og sum okkar sem alveg nenna að elda eru samt orðin dauðleið á þessu. Er ekki eitthvað annað sem má tala um? Getur fólk ekki haft áhuga á einhverju öðru? Ég meina, það er enginn að fara að svelta á Íslandi. Og börn sem aldrei borða matinn sinn hvort eð er þurfa endalaust að spyrja að þessu. Svarið er „Nei,“ fólk hefur eiginlega ekki áhuga á neinu öðru og það er ekki mikið annað að tala um. Kannski veðrið. Sem hefur mjög mikil áhrif á matvælaframleiðslu. Matur er og verður miðpunktur í okkar lífi og athöfnum og mun líklega alltaf leika lykilhlutverk á stóru stundunum. Við sem störfum innan landbúnaðarins höfum með frumframleiðslu á matvælum að gera. Okkar hlutverk er að sjá fólkinu okkar, þjóðinni og ferðamönnum, fyrir hollum og góðum mat sem er framleiddur á sem sjálfbærastan og ábyrgastan hátt. Við sköpum þessi verðmæti sem skipta fólk svo miklu máli. Við þurfum því bæði að vera mjög meðvituð um hvernig við framleiðum matvælin og hvað það er sem neytendur leita eftir en við þurfum einnig að gera ríkar kröfur um það að okkur sé launað í samræmi. Að þessi undirstaða mannlegs lífs sé metin að verðleikum og að flæði virðiskeðjunnar liggi í átt að frumframleiðendum. Við eigum einnig að skapa meiri verðmæti úr matnum með nýsköpun og vöruþróun því þessi markaður lokast líklega aldrei.

Kannski verður einhvern tímann hægt að þrívíddarprenta lamabalæri með sveppasósu og brúnuðum kartöflum en þangað til þarf frumframleiðsla að vera í lagi og hún þarf að vera ábyrg en hún þarf líka að njóta virðingar í samræmi. Nú er ég fjörtíu ára og nokkurra daga og verð að hætta að pikka því ég þarf að finna út hvað ég á að hafa í matinn.


Auður Magnúsdóttir



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page