top of page

Norðanfiskur framleiðir yfir þrjú hundruð vörutegundir

Viðtal frá 2017

Fyrirtækið Norðanfiskur á Akranesi sérhæfir sig í áframvinnslu á hvers kyns sjávarfangi. Að sögn Sigurjóns Gísla Jónssonar, framkvæmdastjóra Norðanfisks, má einkum skipta starfsemi fyrirtækisins í þrennt. „Vörur Norðanfisks eru mjög fjölbreyttar, við framleiðum og seljum yfir 300 vörutegundir. Framleiðslunni má einkum skipta í þrennt; framleiðsla fyrir stóreldhús, veitingastaði og síðan neytendapakkningar,“ segir Sigurjón. Sem dæmi um framleiðslu fyrir stóreldhús nefnir hann breitt vöruúrval af fiski í raspi, lax, plokkfisk og fiskibollur. „Þessar vörur eru fastur liður hjá stórum eldhúsum í skólum og öðrum stofnunum og mötuneytum fyrirtækja um land allt. En við framleiðum eftir pöntunum nánast allt milli himins og jarðar fyrir stóreldhúsin,“ segir hann.

Þegar kemur að veitingahúsum segir Sigurjón fyrirtækið sömuleiðis bjóða mikið úrval af vörum úr gæðahráefni. „Við sjáum flestum veitingastöðum á höfuðborgarsvæðinu og mörgum á landsbyggðinni fyrir hvers kyns sjávarfangi. Allt frá hefðbundnum ferskum eða frosnum hvítfiski og laxi til „high end“ sjávarfangs á borð við humar, humarsoð, hörpudisk, bláskel, risarækjur og eins sjáum við viðskiptavinum okkar fyrir því sjávarfangi er þarf til sushigerðar svo sem túnfisk, hamachi, surimi og fleira í þeim dúr.



Fiskur í matinn


Í þriðja lagi framleiðir Norðanfiskur og selur vörur í neytendapakkningum. „Við vinnum mikið af fiski til smásölu, bæði ferskum og frosnum. Þar má nefna þorsk og ýsu, lax og bleikju, hörpudisk, rækjur en líka tilbúna vöru eins og fisk í raspi, fiskborgara og fiskibollur. Svo er reykti og grafni laxinn hjá okkur alveg svakalega vinsæll,“ segir Sigurjón. Innan þessa smásöluhluta framleiðslunnar er líka að finna nýjustu vörulínu Norðanfisks sem ber heitið Fiskur í matinn. „Fiskur í matinn er vörulína sem við hleyptum af stokkunum í vor. Þar bjóðum við upp á ferskan lax, gullkarfa og þorsk í mismunandi krydd og marineringum, tilbúið til eldunar. Vörurnar eru seldar í fallegum og meðfærilegum umbúðum, eða svokölluðum „skin-pack,“ lofttæmdum umbúðum sem varðveita gæði vöruunnar,“ segir Sigurjón. „Fiskur í matinn hefur fengið mjög góðar viðtökur síðan við fórum af stað með þessa línu í mars á þessu ári. Núna erum við að skoða að bæta við fleiri tegundum í þessa flóru eins og t.d. bleikju og ýsu,“ segir hann.


Hyggja á vöxt Norðanfisks


Norðanfiskur er í eigu HB Granda og þar á bæ segir Sigurjón menn vera stórhuga hvað varðar starfsemi dótturfyrirtækisins. „Rekstur Norðanfisks hefur gengið vel og fyrirhugaður er vöxtur fyrirtækisins. Það eru mikil tækifæri hérna innanlands og einnig inn á markaði erlendis. Fiskneysla er alltaf að aukast jafnt og þétt í heiminum,“ segir Sigurjón. Hann segir áframhaldandi vöruþróun framundan hjá fyrirtækinu og nefnir sem dæmi að von sé á meira úrvali í vörulínunni Fiskur í matinn. „Þar er verið að skoða ýmislegt, til dæmis aukið úrval innan „Fiskur í matinn“ flórunnar. Einnig sjáum við fyrir okkur að bjóða upp á tilbúna fiskrétti, ferska rétti sem fólk getur kippt með sér heim og eldað í ofni án fyrirhafnar. Fiskurinn á mikið inni þegar kemur að slíkum réttum,“ segir Sigurjón Gísli að endingu.




Lagt upp úr góðri þjónustu


Fyrirtækið hefur aðalstarfsemi sína á Akranesi en er einnig með starfsstöð á Tangarhöfða í Reykjavík. Þar er hluta framleiðslunnar pakkað, auk þess sem þar er lager og skrifstofa. „Það hjálpar okkur að þjónusta viðskiptavini okkar á höfuðborgarsvæðinu. Við pössum okkur að eiga okkar helstu vörur alltaf til á lager til að geta brugðist skjótt við ef pantanir koma með stuttum fyrirvara,“ segir Sigurjón. „Við leggjum mikið upp úr góðri þjónustu við viðskiptavini okkar og við afhendum allar vörur heim að dyrum til fyrirtækja um land allt. Húsmæður og heimilisfeður geta síðan nálgast smásöluvörur okkar í verslunum Bónus alls staðar á landinu,“ segir Sigurjón að endingu.



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page