Grein frá 2019
Í stefnu stjórnvalda er lögð áhersla á landbúnað og eflingu hans, þar sem m.a. segir: „Landbúnaður er ein af mikilvægustu atvinnugreinum á Íslandi en hann gegnir mikilvægu hlutverki í fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar.“ Landbúnaður á Íslandi er fjölbreyttur og má nefna, garðyrkju, geitfjárrækt, nautgriparækt, sauðfjárrækt og jarðrækt sem dæmi.
,,Landbúnaðarháskóli Íslands gegnir mikilvægu hlutverki þegar kemur að námi í þessum greinum. Í stefnu skólans til 2024 er áhersla lögð á að stórauka rannsóknir, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf í því skyni að efla kennslu og innviði skólans. Meginstarfsstöðvar skólans eru á Hvanneyri, Reykjum í Ölfusi og Keldnaholti í Reykjavík og mynda þær eina heild þannig að nemendur skólans hafa möguleika á að nýta sér aukna breidd í námsframboði og innviðir skólans til rannsókna, nýsköpunar og kennslu nýtast sem best til verðmætasköpunar og aukinnar samkeppnishæfni“, segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor skólans.
Ásamt því að leggja áherslu á sjálfbærni í námi er stefnan einnig með áherslu á samráð og samvinnu við atvinnulíf, sveitarfélög, opinberar stofnanir og stjórnvöld um sameginleg málefni. Skólinn hefur þá sérstöðu að bjóða bæði starfsmenntanám og háskólanám og er stefnan að styrkja námið enn frekar og nýta samlegðaráhrif milli ólíkra greina sem og milli skólastiga.
„Á öllum stigum námsins er lögð áhersla á umhverfismál, náttúruvernd, vistheimt og sjálfbærni, enda stendur það efni jafnt nemendum sem garðyrkjufaginu öllu nærri. Í skólastarfinu eru gildi Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun höfð í heiðri“, segir Ingólfur Guðnason fagbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu LbhÍ.
Möguleikar í landbúnaðartengdu starfsmenntanámi
Guðríður Helgadóttir forstöðumaður starfs- og endurmenntunardeildar LBHÍ hefur haft umsjón með námi í garðyrkjufögum og búfræði en löng hefð er fyrir námi á því sviði á Reykjum í Ölfusi og á Hvanneyri. „Grunnurinn að góðri fagþekkingu er að sjálfsögðu menntun og þjálfun til viðkomandi starfa. Við höfum í gegnum tíðina átt í mjög góðu samstarfi við atvinnulífið og hafa námskrár allra brauta verið unnar í samstarfi við viðkomandi atvinnugrein“, segir Guðríður.
Við skólann er hægt að læra allt sem viðkemur ræktun. Á starfsstöðinni á Reykjum er hægt að stunda nám í garðyrkjuframleiðslu sem skiptist í áherslu á plöntuuppeldi á garð- og skógarplöntubraut, lífræna ræktun matjurta og ylrækt. Einnig er boðið upp á nám í blómaskreytingum, skógtækni á skóg- og náttúrubraut og skrúðgarðyrkju á Reykjum. Á starfsstöðinni á Hvanneyri er boðið upp á nám í búfræði og er þar aðstaða til jarð-, nautgripa-, hrossa- og sauðfjárræktar til dæmis.
Miklir atvinnumöguleikar eru eftir brautskráningu úr starfsmenntanámi en fólk með góða verklega reynslu og fagþekkingu er mikils metið og á greiða leið út á atvinnumarkað eða að hefja eigin rekstur.
Sérstaða skólans að bjóða bæði háskólanám og starfsmenntanám
Sérstaða skólans liggur ekki síst í því að bjóða bæði upp á háskólanám og starfsmenntanám. Margir nemendur af starfsmenntabrautum halda áfram í háskólanám innan skólans og einnig eru mörg dæmi þess að nemendur fari í starfsmenntanám skólans að loknu háskólanámi.
Landbúnaðarháskólinn er lítill háskóli en hefur mikla breidd í námsframboði og innviðum og það mikilvæga hlutverk að skapa og miðla þekkingu á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu á norðurslóðum. Að undanförnu hafa nýir sérfræðingar verið ráðnir til starfa og doktorsnemendum hefur jafnframt fjölgað. Stórum alþjóðlegum verkefnum fer fjölgandi og finnum við fyrir miklum áhuga á samstarfi við skólann.
Comments