top of page

Selur kindakjöt beint frá býli

Viðtal frá 2017

„Þetta byrjaði allt með bjúgunum,“ segir Kristín Helga Ármannsdóttir sauðfjárbóndi á Ytri-Hólma í Hvalfjarðarsveit. Kristín hafði í mörg ár búið til bjúgu fyrir heimilið og fyrir tveimur árum tók hún það skrefinu lengra þegar hún ákvað að búa til bjúgu og selja á sveitamörkuðum. Hún kom sér upp samþykktri aðstöðu til að vinna kjötafurðir og fór að selja bjúgun á sveitamörkuðum, auk þess sem hún fór að framleiða og selja tvíreykt hangikjöt og grafinn ærvöðva. „Ég fór út í þetta því það þufti að auka tekjurnar meðfram bústörfunum, en á búinu eru um 600 ær,“ segir Kristín. „Viðtökurnar fóru alveg fram úr mínum björtustu vonum og sama fólkið er oft að hafa samband til að kaupa meira, sem ég er mjög þakklát fyrir. Hugmyndin var að skapa mér vinnu þar sem ég gæti stýrt vinnutímanum mínum sjálf. Fyrir síðustu jól ákvað ég að prófa að selja bæði léttreyktan lambahrygg og venjulegt hangikjöt, bæði á beini og úrbeinað. Þessu var svo vel tekið að ég er strax farin að taka við pöntunum fyrir næstu jól,“ segir Kristín og bætir því við að allir geti haft samband við hana og pantað fyrir jólin.



Tvíreykt hangikjöt gott til að narta í

Kristín fór að starfa í fiskvinnslu þegar hún var 14 ára og segist hafa verið með fingurna í matvælum síðan þá. „Ég hef gert svo margt sem tengist mat, til dæmis unnið í sláturhúsi og svo vann ég um tíma í eldhúsinu á Dvalarheimilinu Höfða. Ég hef svona verið í öllum öngum matvælaiðnaðarins,“ segir hún og brosir. „Ég hef í gegn um tíðina aflað mér þekkingar á kjötvinnslu og matreiðslu svo það var ekki flókið fyrir mig að byrja á þessu. Ég hef líka verið bóndi í 36 ár og unnið mitt kjöt sjálf,“ bætir hún við. Kristín segir erlendu ferðamennina helst kaupa hangikjötið og grafna kjötið. „Íslendingar eru að kaupa allar framleiðsluvörur sem við höfum verið að bjóða. Ég hef verið að benda fólki á hversu sniðugt tvíreykta hangikjötið er sem snakk, þetta kemur niðurskorið og er fullkomið sem smá nart í bílnum. Íslendingar eru svo fastir í að hangikjöt sé bara fyrir jólin en það þarf ekki endilega að vera. Ég hef t.d. gjarnan tekið þetta með mér í útilegur yfir sumarið,“ segir Kristín.



Opnar markað

„Ég ætla að prófa að selja ferskt kryddað lambakjöt núna í haust og sjá hvernig fólk tekur í það,“ segir Kristín aðspurð hvort eitthvað nýtt væri væntanlegt frá henni. „Ég verð með ferska kjötið á sveitamarkaði við Æðarodda laugardaginn 7. október og ef fólk er hrifið af því mun ég halda áfram að selja það.“ Fram til þessa hefur fólk aðeins getað keypt vörur Kristínar á sveitamökuðum eða með því að hringja og panta þær hjá henni. Hún hefur ekki haft neinn ákveðinn tíma sem fólk getur komið á til að kaupa vörur en hún stefnir á að breyta því. „Ég ætla að prófa að opna markað með vörum beint frá býli hér heima laugardaginn 14. október og vera þá með auglýstan opnunartíma. Ef það gengur vel held ég að það fyrirkomulag sé komið til að vera. Fólk getur þó alltaf hringt í mig eða fundið Sauðfjárbúið Ytra-Hólmi á Facebook og haft samband ef það vill kaupa hjá mér utan opnunartíma,“ segir Kristín að lokum.



Recent Posts

See All

Comments


bottom of page