Rætt við Lilju Hrund Jóhannsdóttur veitingamaður í Ólafsvík 2019
Veitingarstaðurinn Sker er staðsettur milli hafnarinnar og aðalgötunar í Ólafsvík, í húsnæði sem áður hýsti Landsbankann. Staðinn rekur ung kona að nafni Lilja Hrund Jóhannesdóttir. Rétt eftir að hún útskrifaðist sem matreiðslumaður, fékk hún símtal frá föður sínum þess eðlis að hann og bróður hennar langaði að kaupa húsnæði fyrir vestan og opna veitingastað. „Fyrst hugsaði ég að ég væri alls ekki tilbúin til að opna veitingastað strax eða að fara út í eigin rekstur aðeins 23 ára gömul. En hvernig segir maður nei við svona tækifæri,“ segir Lilja. Hana hafði alltaf dreymt um að flytja aftur heim en ekki vitað hvenær væri rétti tíminn. En hún sér svo sannarlega ekki eftir þeirri ákvöðrun. „Ég myndi ekki vilja vera að gera neitt annað í dag,“ segir hún ákveðin.
Lagað frá grunni
Þema veitingarstaðins Skers er ferskleiki. „Við erum þekkt fyrir að vera með góðan og ferskan fisk sem kemur beint úr Breiðafirði. Við viljum að viðskiptavinir okkar viti hvaðan hráefnið kemur. Svo lögum við allt sem við getum frá grunni sjálf. Öll brauð, sósur, olíur, kökur og já bara eiginlega allt,“ segir Lilja og heldur áfram: „ Sker hefur líka þann eiginleika að þú getur komið og fengið þér allt frá pítsu yfir í góða steik. Ég vildi setja saman fjölbreyttan matseðil svo allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi og við allskonar tilefni.“
Lilja teigir anga sína út fyrir veggi veitingarstaðarins því Sker og Útgerðin í Ólafsvík hafa verið í samstarfi. „Ég framleiði mat fyrir Útgerðina sem seldur er þar. Þar er lagt mikið upp úr hollustu og á bæði að vera hægt að borða hann þar á staðnum eða taka með sér. Ég hannaði matinn út frá því. Þar eru seldar vefjur, pasta, salat og sushi. Skemmtilegt samstarf sem hefur verið tekið vel í,“ segir Lilja.
Hráefni úr héraði skarar framúr
Aðspurð um uppáhalds hráefni við matargerðina svarar Lilja að það komi úr héraði og er að sjálfsögðu ferski og góði fiskurinn. Fiskur sem oftar en ekki er veiddur af bróður hennar á bátnum sem pabbi þeirra á. „Nú og ef ég á að nefna eitthvað annað hér þá er ég mjög hrifin af salatinu frá Áslaugu á Lágafelli sem og kartöflunum hennar Stínu í Hraunsmúla,“ segir hún og heldur áfram: „Svo er það auðvitað árstíðarbundni maturinn. Núna erum við að hugsa um villibráð og jólamat. Erum í samstarfi við Varginn, hann Snorra Rafnsson. Hann veiddi hreindýrið og gæsirnar. Svo verð ég að fá að minnast á jólahamborgarann og jólapizzuna sem slógu í gegn í fyrra og margir bíða spenntir eftir.“
Comments